Enski boltinn

Rússi kaupir hlut Dein í Arsenal

David Dein græddi vel þegar hann seldi hlut sinn í Arsenal.
David Dein græddi vel þegar hann seldi hlut sinn í Arsenal. Nordic Photos/Getty

David Dein, fyrrverandi varaformaður Arsenal, hefur selt 14,5% hlut sinn í félaginu til rússneska auðkýfingsins Alisher Usmanov fyrir 75 milljónir punda eða 9,75 milljarða íslenskra króna. Lítil ánægja ríkir meðal annarra hlutahafa Arsenal með ákvörðun Deins.

Usmanov hefur auðgast mjög á stáliðnaði og eru eignir hans metnar á 520 milljarða íslenskra króna. Það ríkir þó lítil ánægja með þeirra hlutahafa sem fyrir eru hjá Arsenal með aðkomu Rússans.

"Við þurfum ekki fleiri fjárfesta. Félagið er nógu sterkt til að berjast á toppnum og fjárhagurinn er afar góður. Það munu allir sjá það þegar við birtum ársreikning okkar í september," sagði Kevin Edelman, framkvæmdastjóri hjá félaginu.

Hluthafarnir ættu þó að vara sig því svo gæti farið að Usmanov gangi til liðs við bandaríska auðkýfinginn Stan Kroenke sem er góðvinur Deins. Kroenke á rúm 12% í félaginu og saman eru þeir nálægt þeirri tölu sem gefur þeim færi á yfirtökuskyldu. Þá vantar aðeins rétt rúm þrjú prósent til að ná því sem yrði væntanlega martröð fyrir núverandi hlutahafahóp sem heldur um stjórnartaumana hjá félaginu.

Ljóst er þó að Arsene Wenger myndi fagna aðkomu Deins að félaginu á ný en þeir tveir eru nánir vinir. Dein hætti hjá Arsenal í apríl vegna deilna um framtíð félagsins og hefur síðan leitað logandi ljósi að moldríkum mönnum til að fjárfesta í Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×