Enski boltinn

Saha kom til bjargar

Roy Keane kom í fyrsta skipti á Old Trafford í gær sem knattspyrnustjóri. Hann var sendur tómhentur heim en drakk eflaust smá viskítár með Ferguson eftir leikinn.nordic
Roy Keane kom í fyrsta skipti á Old Trafford í gær sem knattspyrnustjóri. Hann var sendur tómhentur heim en drakk eflaust smá viskítár með Ferguson eftir leikinn.nordic AFP

Manchester United lagði Sunderland, 1-0, með marki frá Louis Saha, sem var að spila sinn fyrsta leik eftir meiðsli. Dagurinn var tilfinningaþrunginn fyrir stuðningsmenn Manchester United en Ole Gunnar Solskjær, sem neyddist til að leggja skóna á hilluna í vikunni vegna meiðsla, var heiðraður fyrir leik.

Svo var Roy Keane að snúa aftur á Old Trafford og nú sem knattspyrnustjóri. Keane fékk stórkostlegar móttökur á Old Trafford en 75 þúsund áhorfendur stóðu upp fyrir honum og sungu nafn hans heillengi.

„Móttökurnar voru ótrúlegar. Stuðningsmenn United hafa alltaf verið góðir við mig en það er lítil sárabót eftir þetta tap,“ sagði Keane. „Ég var ánægður með framlag minna leikmanna en ég hefði viljað sjá okkur þjarma meira að marki United.“

Louis Saha kom af bekknum í leikhléi fyrir Anderson en Saha hefur verið mikið frá vegna meiðsla. Hann var fljótur að minna á sig og bjargaði stigunum þremur fyrir United með marki 19 mínútum fyrir leikslok.

„Við erum búnir að sakna hans og það er frábært að vera búið að endurheimta hann,“ sagði Ferguson, stjóri United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×