Enski boltinn

Luque vill fara til Real Betis

Aron Örn Þórarinsson skrifar
Albert Luque vill fara aftur til Spánar.
Albert Luque vill fara aftur til Spánar. NordicPhotos/GettyImages

Albert Luque, framherji Newcastle, hefur mikinn áhuga á að komast að hjá Real Betis og ganga þar með í lið með fyrrverandi þjálfara sínum, Hector Cuper, en sá þjálfaði einmitt Luque þegar hann spilaði með Mallorca. Rafael Luque, faðir og umboðsmaður leikmannsins, er sagður hafa átt fund með Manuel Ruiz de Lopera, forseta Betis og rætt við hann um möguleg félagsskipti sonarins.

„Það væri mikill heiður að spila fyrir jafn gott félag og Betis, liðið er eitt það besta á Spáni," sagði leikmaðurinn í viðtali við spænsku pressuna. „Það skemmir ekki fyrir að Hector Cuper sé knattspyrnustjóri liðsins. Liðið á frábæra stuðningsmenn og það er mikil uppbygging í gangi."

Luque hefur ekki náð að standa sem skildi eftir að hann gekk til liðs við Newcastle fyrir 9,5 milljónir punda frá Deportivo árið 2005, og nú hefur samkeppnin aukist til muna með tilkomu Alan Smith og Mark Viduka til félagsins. Hann hefur nú sett stefnuna á að fara aftur til Spánar en er samt þakklátur Newcastle fyrir að gefa honum tækifæri til að spreyta sig á Englandi.

„Þeir gáfu mér tækifæri til að spila í besta deild Englands. En núna finnst mér mest aðlaðandi að fara aftur til Spánar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×