Innlent

Tekur viku að afferma súrálið

Það tekur starfsmenn Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði viku að afferma skip sem kom með fyrsta súrálsfarminn til Reyðarfjarðar í gær. Reiknað er með að byrjað verði að framleiða ál í verksmiðjunni um páskana.

Það eru þrjú ár frá því bygging álversverksmiðjunnar á Reyðarfirði hófst sumarið 2004. Í gær kom flutningaskipið Pine Arrow með fyrsta farminn af súráli frá Ástralíu, eftir sex vikna siglingu. Skipið kom með tæp 40 þúsund tonn af súráli og segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaráls að þetta hafi verið stór dagur í sögu fyrirtækisins.

Tómas Már Sigurðsson forstjóri Alcoa Fjarðaráls segir að það muni taka viku að afferma skipið. Hann segir að von sé á tuttugu förmum sem þessum á ári.

Það tekur tíma að ræsa öll 336 kerin í álverinu eða um hálft ár. Erna Indriðadóttir upplýsingafulltrúi Alcoa, segir að um páskana verði byrjað á einu keri. Heildarframleiðslugeta álversins er 336 þúsund tonn á ári.

Það er hægt að framleiða eitt tonn af áli úr hverjum tveimur tonnum af súráli, þannig að það er hægt að framleiða um 20 þúsund tonn af áli úr fyrsta farminum sem kom í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×