Innlent

Wilson Muuga þriðja erlenda flutningaskipið sem lifir af?

Gissur Sigurðsson skrifar

Flutningaskipið Wilson Muuga, sem situr á strandstað á Reykjanesi, gæri orðið þriðja erlenda flutningaskipið til að lifa af strand við Íslandsstrendur, ef það verður dregið á flot í stað þess að rífa það á staðnum.

Ljóst er að til þess að geta dregið það út þarf að þétta það verulega þannig að það fljóti örugglega, en þá er líka hægt að draga það í slipp og endurnýja botnin, því vél-og spilbúnaður eru óskemmd og sömuleiðis rafkerfið að mestu, samkvæmt upplýsingum Fréttastofunnar.

Það gæti því allt eins siglt um heimsins höf á ný, líkt og danska flutningaskipið Marin Danielsen, sem strandaði utan við Grindavík árið 1989 og ekki var hugað líf, eins og það var orðað. Það náðist þó á flot í þriðju tilraun, var gert upp og kom þónokkrum sinnum hingað til lands eftir það. Þar áður var það þýska flutningaskipið Susanna Reith, sem standaði á skeri við Raufarhöfn fyrir liðlega 40 árum, en björgunarfélagið Björgun náði af skerinu á ævintýralegan hátt og notaði í nokkur ár, áður en það var selt úr landi.

En það eiga ekki öll skip afturkvæmt úr íslenskum fjörum. Örlög færeyska flutningaskipsins Vikartinds urðu til dæmis þau að verða rifið niður í bortajárn, eftir að skipið strandaði í Háfsfjöru, neðan við Þykkvabæ, fyrir tíu árum. Útilokað þótti að ná skipinu á flot aftur og var þá gripið til niðurrifs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×