Enski boltinn

Ekki kenna útlendingunum um hrakfarir Englendinga

NordicPhotos/GettyImages

Marcel Desailly, fyrrum leikmaður Chelsea og franska landsliðsins, vill ekki sjá að breska þjóðin kenni útlendingum í úrvalsdeildinni um hrakfarir enska landsliðsins í undankeppni EM.

Mikið hefur verið rætt um síaukinn straum útlendinga inn í ensku úrvalsdeildina síðustu ár og margir vilja meina að ungir heimamenn fái ekki lengur tækifæri til að verða eins góðir og þeir geta orðið af því þeir fái einfaldlega ekki tækifæri til að spila.

Þá eru þekktar hugmyndir Sepp Blatter um að takmarka fjölda útlendinga í deildum Evrópu búnar að vera mikið uppi á borði undanfarin misseri.

"Ekki gagnrýna mennina sem hafa skapað ensku deildinni þá umfjöllun og kynningu á heimsvísu sem gerir hana að því sem hún er í dag," sagði Desailly í viðtali við AP.

Hann vill einfaldlega að menn gefi sér meiri tíma til að meta leikmenn sem þeir flytja inn til landsins. "Menn mega ekki gleyma því að það eru útlendingarnir sem hafa gert deildina að einni sterkustu deild í heimi, en á sama tíma held ég að félögin á Englandi ættu aðeins að leita út fyrir landssteinana ef um sanna gæðaleikmenn er að ræða. Það væri nóg að hafa þrjá eða fjóra útlendinga í hverju liði og þá fengju heimamenn frekar tækifæri til að spila í stað þeirra miðlungsgóðu útlendinga sem eru að taka sæti þeirra í dag," sagði Desailly.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×