Enski boltinn

Wenger hefur áhyggjur af knattspyrnunni

NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segist hafa miklar áhyggjur af framtíð ensku knattspyrnunnar vegna ágangs fjölmiðla og afskipta viðskiptajöfra.

Wenger segir að enski boltinn sé í hættu vegna þess hve sjónvarpshlutinn sé að stækka og vegna nýju eigendanna. Fréttir af því að rússneski milljarðamæringurinn Alisher Usmanov væri að auka hlut sinn í Arsenal bárust í morgun og Wenger segir það áhyggjuefni hvað auðmenn séu farnir að líta á knattspyrnuna sem gróðavænleg fyrirtæki.

"Enski boltinn er að missa sálina," sagði Wenger í samtali við France Football. "Fyrstu hættumerkin eru þegar komin fram þar sem við sjáum að leikvangarnir eru að tæmast og sjónvarps- og útvarpsstöðvarnar eru pakkfullar af fótbolta. Það liggur í loftinu að fólk fari að fá "of stóran skammt" af fótbolta.

Það er auðvitað óhjákvæmilegt að boltinn sé eitthvað viðskiptatengdur, en einu sinni voru eigendurnir stuðningsmenn liðanna - nú eru þeir bara viðskiptamenn. Það er ekki langt síðan þessi þróun fór af stað, en nú eru komin ákveðin hættumerki. Kannski er orðið tímabært að hafa áhyggjur af þessu," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×