Lífið

Piparsveinn í fjárhagskröggum

Steingrímur segir gjaldþrotið vera óbeinar afleiðingar af þátttöku sinni í Bachelor.
Steingrímur segir gjaldþrotið vera óbeinar afleiðingar af þátttöku sinni í Bachelor.

„Það fór eiginlega allt illa sem gat farið illa á meðan þessu Bacheolor-dæmi stóð,“ segir piparsveinninn víðfrægi Steingrímur Randver Eyjólfsson. Í Lögbirtingarblaðinu kemur fram að bú Steingríms verði tekið til gjaldþrotaskipta þann 19. mars.

Steingrímur segir hins vegar að hann sé búinn að redda málunum fyrir horn en viðurkennir að raunveruleikaþátturinn hafi farið ansi illa með hann. „Ég ætla ekki að skella skuldinni á þáttinn sjálfan heldur eru þetta svona óbeinar afleiðingar af honum,“ segir hann.

Steingrímur hefur látið lítið fyrir sér fara síðan að fárið vegna þáttarins gekk yfir og segist einfaldlega hafa verið að vinna eins og skepna til að greiða niður skuldir. „Ég hef eiginlega bara verið að vinna og borga,“ segir hann.

Steingrímur er í málaferlum vegna ógreiddra skulda sem hann á inni hjá aðilum úti bæ og segir að þetta sé leiðindamál. „Ég er duglegur strákur og á eftir að ná mér upp úr þessu,“ segir Steingrímur. „Ég vissi að þetta stefndi í óefni þegar við byrjuðum að taka upp þáttinn og ég lét þau vita af því.

Ég var hins vegar samningsbundinn þættinum og var hótað háum skaðabótagreiðslum ef ég hætti við. Ég átti því í fá hús að venda,“ útskýrir Steingrímur sem segist hafa verið ein taugahrúga þegar endalok þáttarins nálguðust enda vissi hann þá að fjármálin heima fyrir voru á rangri leið. Hann horfir hins vegar björtum augum til framtíðar og segist fullviss um að nú geti hlutirnir bara batnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.