Erlent

Tekist á um örlög fjögurra ára telpu

Örlög fjögurra ára norskrar telpu sem liggur í dauðadái eru nú bitbein lækna og ástvina hennar. Málið hefur vakið mikla athygli í Noregi, ekki síst eftir að Björgvinjarbiskup skarst í leikinn.

Kristina litla Hjartåker var á ferðalagi með móður sinni í september síðastliðnum þegar aurskriða skall á bíl þeirra. Móðir Kristinu beið bana en sjálf hefur hún legið meðvitundarlaus í öndunarvél á sjúkrahúsi í Björgvin síðan slysið varði. Í síðustu viku komust læknar telpunnar að þeirri niðurstöðu að engin von væri um að hún kæmist aftur til meðvitundar og því hugðust þeir taka úr sambandi útbúnaðinn sem hélt í henni lífinu. Við það vildi faðir hennar, hins vegar ekki una og voru þá ekki aðrir kostir í stöðunni en að fara með málið fyrir dómstóla. Málið hefur vakið athygli og deilur í Noregi enda tekist á um hinstu rök tilverunnar, réttinn til að lifa eða deyja. Dómstóllinn átti að kveða upp úrskurð sinn í dag en í gærkvöld tók málið hins vegar alveg nýja stefnu þegar Ole Hagesæther, biskup í Björgvin, skarst í leikinn og fékk lækna og fjölskyldu stúlkunnar til að reyna til þrautar að leysa ágreininginn, án íhlutunar dómstóla. Búist er við að þau komist að niðurstöðu eftir nokkra daga en þangað til munu þau ekkert tjá sig um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×