Innlent

Höfuð forsætisráðherra notað í áróðursskyni

Auglýsing bresku náttúruverndarsamtakanna IFAW sem birtist í dagblaðinu The Times í morgun samræmist ekki siðareglum Sambands íslenskra auglýsenda, sem byggðar eru á siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins. Í auglýsingunni hefur andlit Halldórs Ásgrímssonar verið klippt inn í aðra mynd af starfsmanni fiskborðs sem réttir fram hvalkjöt á bakka.

Siðareglur auglýsenda hér á landi kveða skýrt á um að ekki skuli sýna eða minnast á einstaklinga nema að áður fengnu leyfi hjá viðkomandi og siðareglur evrópskra auglýsendasamtaka eru oftast svipaðar að þessu leyti. Ekki fengust viðbrögð frá forsætisráðuneytinu um það hvort brugðist yrði við auglýsingunni. Talsmenn hvalaskoðunar efast um að auglýsingin hafi mikil áhrif á almenningsálit í Bretlandi þar sem málefnið hafi ekki verið mikið í umræðu þar undanfarið. Þó sé alltaf einhver hópur náttúruverndarsinna sem láti sig málið varða og að það fólk sé nú hætt að leggja leið sína til Íslands sérstaklega til þess að skoða hvali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×