Erlent

Ekkert lát er á mótmælum vegna myndbirtinga af Múhameð spámanni.

Ekkert lát er á mótmælum múslíma um allan heim vegna myndbirtinga af Múhameð spámanni. Hóta öfgasinnuð samtök morðum og hryðjuverkum í Danmörku sem og í fleiri Evrópuríkjum.

Dönsku teiknararnir sem teiknuðu umdeildu myndirnar af Múhameð spámanni, hræðast nú um líf sitt. Þeir eru í felum víðsvegar um Danmörku og gætir lögreglan þeirra nótt sem dag. Öfgasinnuð samtök múslimar hafa hótað hryðjuverkum í Danmörku og hvatt meðlimi sína til að ráðast á Skandinava hvar sem þá er að finna. Forseti Blaðamannasambands Danmerkur, segir teiknarana vera miður sín vegna málsins sem hafi vaxið hratt og ógni nú friði og öryggi manna í mörgum löndum og sjái þeir eftir að hafa teiknað mynd af Múhameð. Ritstjóri Jótlandspóstsins segir tilganginn með teikningunum hafa verið að sýna fram á að múslímar væru ekki undanþegnir háðsádeilu. Ætlunin hafi þó ekki verið að móðga neinn og harmi þeir að það hafi gerst. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt menn til þess að sýna stillingu vegna deilunnar um skopmyndirnar af Múhameð spámanni. Annan segir að hann skilji vel hvers vegna múslímar séu reiðir en hann hvetur þá þó til að taka afsökunarbeiðni Jótlandspóstsins gilda. Samtök múslima í Danmörku hafa tekið afsökunarbeiðni Jótlandspóstsins gilda en margir óttast þó að hryðjuverk verði framin í landinu vegna málsins. Einn af helstu leiðtogum Hamassamtakanna, Mahmoud Zahar, segir í blaðaviðtali í dag að skopmyndirnar séu ófyrirgefanlegar og dauðasök. Zahar er einn af leiðtogum Hamas, sem fékk hreinan meirihluta á palestínska heimaþinginu í kosningum sem fóru fram 25. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×