Erlent

Önnur kjarnorkusprengja

Japanskir fjölmiðlar segja frá því að hugsanlega hafi önnur kjarnasprengja verið sprengd í Norður Kóreu.

Stjórnvöld í Pyongyang líta svo á að aukist þrýstingur Bandaríkjamanna jafngildi það stríðsyfirlýsingu. Þeir hafa hótað frekari kjarnorkutilraunum, en segjast einnig tilbúnir bæði til viðræðna og átaka. Kim-Yong-nam sem er annar í valdaröð Norður Kóreu sagði að möguleiki á frekari tilraunum velti hins vegar á stefnu Bandaríkjastjórnar í málinu.

Þrýstingur eykst á Sameinuðu Þjóðirnar að beita Pyongyang refsiaðgerðum og öryggisráðið mun líklega taka ákvörðun fyrir föstudag.

Hagfræðingar segja viðskiptaþvinganir ekki muni hafa veruleg áhrif nema Kínverjar og Rússar taki þátt í þeim, en Bandaríkjastjórn hefur hvatt Sameinuðu Þjóðirnar til að taka upp sjöundu grein samtakanna sem skyldar aðildarríki til þátttöku.

Mannúðarsamtök segja að matvælaaðstoð verði að halda áfram, annars sé hætta á að milljónir manna svelti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×