Innlent

Vestfirðingar buðu lægst í Djúpveg

Verktakar á Ísafirði buðu lægst í gerð Djúpvegar um Mjóafjörð, Vatnsfjörð og Reykjanes en tilboð voru opnuð í dag. Þetta er stærsta vegagerð í fjórðungnum frá því Vestfjarðagöngum lauk og felst meðal annars í gerð svipmikillar stálbogabrúar yfir Mjóafjörð. Brúin yfir Mjóafjörð verður sennilega eitt af einkennistáknum Vestfjarða í framtíðinni. Hún verður eitt hundrað metra löng og boginn mun teygja sig 17 metra upp yfir brúargólfið. Þessi brú er þó aðeins hluti þess verksins. Önnur sextíu metra brú verður byggð yfir Reykjafjörð og þriðja brúin, tíu metra löng, yfir Vatnsfjarðarós, auk þess sem fimmtán kílómetra langur nýr vegur verður lagður milli Reykjaness og Mjóafjarðar. Ný veglína þýðir að þjóðvegurinn mun framvegis liggja allt árið um hið fornfræga höfuðból, Vatnsfjörð, og ennfremur mun vegurinn liggja um hlaðið á Reykjanesskóla. Þetta er með stærstum verkum sem boðin hafa verið út í vegagerð hérlendis en tilboð voru opnuð í dag. Tilboðsopnun fór fram bæði í Reykjavík og á Ísafirði og var sjónvarpað á milli staða. Þegar átta tilboð höfðu verið lesin upp í Reykjavík var Ístak lægst og átti þá bara eftir að opna eina tilboðið sem skilað var inn á Ísafirði. Reyndist það á endanum vera lægst en það kom frá KNH á Ísafirði og Vestfirskum verktökum og hljóðaði upp á rétt liðlega einn milljarð króna, sem var 84 prósent af kostnaðaráætlun. Ístak og Háfell komu næst en hæsta boð áttu Íslenskir aðalverktakar.

Framkvæmdir hefjast í vetur og á þeim að ljúka innan tveggja ára. Menn ættu því að geta ekið um nýja veginn haustið 2008.

Nánar á síðu Vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×