Innlent

Skot og sprengjur á 73 svæðum á landinu

Skot og sprengjur geta verið á sjötíu og þremur svæðum á landinu, sem ná yfir 24 þúsund hektara lands. Utanríkisráðherra segir að það geti bæði orðið langvinnt og kostnaðarsamt verkefni að hreinsa upp þessi svæði en stærstu svæðin eru frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Þetta kom fram í svari Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, við fyrirspurn frá Jóni Gunnarssyni, þingmanni Samfylkingarinnar á Alþingi í síðustu viku. Ráðherrann sagði að frá seinni heimsstyrjöld hefðu Bretar og Bandaríkjamenn haldið skot- og sprengjuæfingar á 73 svæðum á landinu. Flest væru svæðin á stór Reykjavíkursvæðinu og Reykjanesi, en nokkur væru á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi. Langstærstu svæðin væru frá tímum breska hernámsliðsins og síðar Bandaríkjamanna á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Utanríkisráðherra var líka spurður hver ætti að sjá um að hreinsa þessi svæði. Hún sagði sprengjueyðingu vera á könnu Landhelgisgæslunnar lögum samkvæmt, en hún teldi koma til greina að utanríkisráðuneytið kæmi að hreinsuninni. Þannig gætu sprengjusérfræðingar nýst við friðargæsluverkefna á þeim tímum sem ekki hentaði að leita að sprengjum á Íslandi.

Valgerður sagði að þegar hefði farið fram hreinsunarstarf á tilteknum svæðum, aðallega á Patterson-svæðinu, samkvæmt áætlun utanríkisráðuneytisins, varnarliðsins og sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar. Ljóst sé að það verði bæði langvinnt og kostnaðarsamt að hreinsa upp öll þau svæði sem ætla má að sprengjur og skotfæri liggi í jörðu.

Fyrirspyrjandinn, Jón Gunnarsson, sagði, í umræðunni á Alþingi, að sér kæmi á óvart hvað sprengjur lægju á mörgum svæðum. Brýnt væri að fllýta hreinsun þeirra. Ef ein þeirra spryngi og ylli manntjóni væri það einni sprengju of mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×