Innlent

Krefjast úrbóta tafarlaust

Fjölmennur baráttufundur aðstandendafélags aldraðra í dag krefst tafarlausra úrbóta í húsnæðismálum aldraðra. Staða mála er sorgleg og skammarleg fyrir eina ríkustu þjóð í heimi, sögðu fundarmenn.

Að mati fundarmanna er brýnt að bæta húsnæðismál aldraðra - fjölga hjúkrunarrýmum nú þegar og taka fyrir það að aldraðir þurfi að eyða ævikvöldinu í fjölbýli. Hátt í þúsund manns þurfa nú að búa með ókunnugum í herbergi. Séra Jóna Hrönn Bolladóttir flutti áhrifaríka tölu um reynslu sína af vistun fyrir heilabilaðan föður sinn. Hún sagðist ekki hafa fyllst reiði yfir úrræðaskortinu - fremur sorg og skömm yfir því hve illa væri búið að öldruðum í einu ríkasta landi heims. Þessi orð - sorg og skömm - endurspegla vel ástandið í heild segir formaður AFA, Reynir Ingibergsson.

Ólafur G. Einarsson fyrrverandi þingforseti og ráðherra og minnti á hvernig seilst heðfi verið í framkvæmdastjóð aldraðra. Með framlögum í þann sjóð átti að reisa hús fyrir aldraða en með þingið hefði síðan ákveðið að taka fé úr sjóðnum í almennan rekstur. Þar hefðu verið teknir fimm milljarðar sem er helmingurinn af ráðstöfunarfé sjóðsins síðustu fimmtán ár. Fundurinn í dag krafðist þess að peningununum verði skilað í þau verkefni sem skattgreiðendur ætluðust til - og það strax.

Áskorun fundarins var stíluð á formenn allra flokka á þingi, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra, forseta þings, og formann fjárlaganefndar. Aðeins einn úr þessum níu manna hópi, Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins var á fundinum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×