Innlent

Gefur ekki upp hvorn hann styður

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri segist ekki gefa upp hvort hann styðji Björn Bjarnason eða Guðlaug Þór Þórðarson í annað sætið í Reykjavík. Vilhjálmur hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við Guðlaug Þór en prýðir einnig forsíðu kosningabæklings Björns.

Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson borgarstjóri hefur lýst yfir stuðningi við Guðlaug Þór Þórðarson í Reykjavík og opnaði kosningaskrifstofu hans í Reykjavík.

Hann hélt hinsvegar líka ræðu þegar Björn Bjarnason opnaði sína skrifstofu.

Vel valdar setningar úr þeirri ræðu eru nú í kosningabæklingi Björns og mynd af borgarstjóranum eftirsótta prýðir einnig forsíðu bæklingsins og ummæli hans um að einmitt svona stjórnmálamenn eigi að styðja.

Báðir sækjast frambjóðendurnir eftir öðru sæti og átökunum er lýst sem einvígi milli ólíkra fylkinga í flokknum.

Vilhjálmur er greinilega orðinn lykilmaður í stuðningi við báða frambjóðendur. Hann segist fyrst og fremst hafa verið að lýsa mannkostum þessara einstaklinga. Ekki bara þessara tveggja sem keppa um annað sætið heldur fleiri, m.a. Ástu Möller. Þetta fólk þekki Vilhjálmur vel og hefur unnið með því. Það sé svo kjósenda að raða þessu fólki í sæti á lista.

Framboð Guðlaugs Þórs brást ókvæða við kosningabæklingi Björns og svaraði með auglýsingu í Fréttablaðinu í dag þar sem Vilhjálmur og Guðlaugur Þór standa saman og haft er eftir borgarstjóranum að styðja eigi Guðlaug Þór. Fyrir neðan myndina stendur Guðlaugur Þór í annað sætið. Sætið sem Guðlaugur og Björn berjast um en úrslitin verð ljós á laugardag. Vilhjálmur segist styðja bæði Guðlaug Þór og Björn en ekki tiltaka ákveðið sæti.

Vilhjálmur segir ljóst að Guðlaugur Þór hafi stutt sig mjög vel en Vilhjálmur hafi ákveðið að tiltaka ekki hvar hann vilji að hver lendi í sæti. Hann beri fullt traust til allra þeirra sem hann hafi stutt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×