Erlent

Íranar heita fullri samvinnu

Manouchehr Mottaki utanríkisráðherra Írans hét í dag fullri samvinnu Írana varðandi ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé í Líbanon. Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ræddi við hann í Teheran í dag. Samkvæmt ályktuninni eru vopnasendingar til Hisbolla bannaðar, en talið er að Íranar hafi útvegað samtökunum vopn í áraraðir. Annan ræddi við forseta Írans, Mahmoud Ahmadinejad, í síma áður en hann hélt af stað til Írans. Talsmaður Sameinuðu þjóðanna sagði í dag að í því samtali hefði íranski forsetinn sagt að Íranir hefðu efasemdir um sum ákvæði ályktunarinnar en að þeir myndu samt sem áður fara eftir henni. Annan ræðir við Ahmadinejad á morgun. Búist er við að þeir ræði bæði málefni Líbanons og ákvörðun Írana að auðga úran, þrátt fyrir andstöðu alþjóðasamfélagsins. Frestur sem Íranar höfðu til að hætta auðgun úrans rann út um síðustu mánaðamót. Evrópusambandið ákvað í dag að bíða með aðgerðir í tvær vikur, á meðan reynt er að ræða við stjórnvöld í Íran um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×