Innlent

Aldrei meiri eftirspurn eftir stúdentaíbúðum

Aldrei hafa fleiri verið á biðlista fyrir húsnæði á stúdentagörðum Háskóla Íslands og ástandið á almennum leigumarkaði er síst skárra. Sigurður Örn Hilmarsson, formaður stúdentaráðs, segir einungis standa á lóðaúthlutun til þess að byggja megi fleiri stúdentaíbúðir.

Nú eftir að búið er að úthluta íbúðum á stúdentagörðum eru samt 700 nöfn enn á biðlistanum. Þrátt fyrir að 96 stúdentaíbúðir hafi verið teknar í notkun í sumar og þar með fleiri sem fá pláss á görðunum eru engu að síður 15 prósentum fleiri á biðlistum en á sama tíma í fyrra.

Ekki er heldur hægt um vik að leita sér að húsnæði á hinum almenna leigumarkaði. Bæði hefur leiguverðið hækkað að meðaltali um 10-20% á milli ára, mest í miðbænum og nærri háskólanum en eins eru fleiri um hituna og eftirspurnin fádæma mikil.

Sigurður segir það eina sem vanti til að bæta úr húsnæðisvanda stúdenta séu lóðir til að byggja á nýja stúdentagarða. Fjármagn til byggingarinnar sé til staðar og eftirspurnin sé svo sannarlega næg. Hann segir að stúdentaráð hafi komið að máli við alla flokka sem buðu fram í borgarstjórnarkosningum og að lóðaúthlutun til hafi í kjölfarið verið sett á stefnuskrá allra flokkanna. Hann bætir því við að nú sé tími til kominn að efna loforðin og finna nýjum stúdentagörðum stað.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×