Erlent

Lík hlaðast upp í Líbanon

Ísraelar segjast hafa náð um tuttugu þorpum í Suður-Líbanon á sitt vald og þar með tryggt öryggissvæði sem þeir vilja stækka enn frekar á næstu dögum. Forsætisráðherra Líbanons segir níu hundruð manns hafa fallið í átökum liðinna vikna og einn fjórða landsmanna hafa lent á vergangi.

Að sögn hermálayfirvalda nær öryggissvæði Ísraela í Líbanon rúma sex kílómetra frá landamærunum og vonast Ísraelar til að geta tvöfaldað þá vegalengd á næstu dögum. Talið er að um það bil tíu þúsund hermenn berjist nú við Hizbollah-skæruliða í Suður-Líbanon.

Loftárásir Ísraelsmann hafa haldið áfram. Árásir á Beirút, höfuðborg Líbanons, hafa hafist að nýju eftir nokkurra daga hlé.

Fouad Siniora, forsætisráðherra Líbanons, segir níu hundruð Líbana hafa fallið í árásum síðustu þriggja vikna og þrjú þúsund særst. Einn þriðji þeirra sé undir tólf ára aldri. Siniora segir eina milljón Líbana á vergangi vegna átakanna, eða einn fjórða landsmanna.

Heimildarmaður í öryggissveitum Líbanons segir áttatíu skæruliða Hizbollah hafa fallið í átökunum en Ísraelar segjast hafa fellt á bilinu þrjú til fjögur hundruð skæruliða.

Hizbollah liðar hafa haldið flugskeytaárásum sínum á Ísrael áfram í dag og hafa átta Ísraelar fallið í þeim það sem af er degi. Alls hafa sextíu og sjö Ísraelar týnt lífi í átökunum, þar af fjörutíu hermenn.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, segist vongóður um að hægt verði að ná saman um ályktun í málinu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á næstu dögum. Sendifulltrúi Frakka hjá samtökunum er ekki eins vongóður.

Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti, sagði í dag að lausn mála í Mið-Austurlöndum væri eyðing Ísraelsríkis en fyrst um sinn væri aðeins hægt að binda enda á átökin með vopnahlé.

Um leið og föllnum fjölgar dag frá degi vinna líkkistusmiðir í Líbanon myrkranna á milli. Líkhúsin í Líbanon eru yfirfull og því hefur þurft að geyma lík í flutningabílum sem búnir eru kælibúnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×