Erlent

Hjálpargögn komust loks til Kana

Bílalest með hjálpargögnum komst til Kana í Líbanon nú í morgun, þrátt fyrir að Ísraelar haldi loftárásum sínum áfram í Líbanon. Ísraelskur landher sækir nú lengra inn í Suður-Líbanon til að berjast gegn skæruliðum Hisbollah.

Tuttugu skæruliðar Hisbollah létust í bardögum við ísraelska hermenn í nótt og í morgun, að sögn ísraelskra heryfirvalda. Þrír ísraelskir hermenn létust einnig í bardögunum. Markmið Ísraelsmanna er að reka Hisbollah norður yfir Litani-ána, sem rennur um 20 kílómetra frá landamærunum. Þannig hefðu Ísraelsmenn það öryggissvæði milli sín og Hisbollah, sem þeir telja sig þurfa.

Þetta öryggissvæði segjast Ísraelar ætla að verja þangað til alþjóðlegt friðargæslulið getur tekið við. Hermálayfirvöld segjast þurfa tíu til fjórtán daga til viðbótar til þess að ganga milli bols og höfuðs á Hisbollah. Að sögn ísraelskrar útvarpsstöðvar hafa allt að 15 þúsund hermenn til viðbótar verið kallaðir út til að taka þátt í átökunum.

Forseti Sýrlands, Bashar Assad, sagði hermönnum sínum í gær að vera við öllu búnir vegna ófriðar á svæðinu. Ekki hafa þó verið gefin formleg fyrirmæli til hersins um hvort Sýrlendingar muni taka þátt í átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×