Erlent

Tony og tortímandinn ætla að berjast gegn mengun

Tony Blair (t.v.) og Arnold Scwarzenegger (t.h.) sátu fyrir svörum í Kaliforníu í gær.
Tony Blair (t.v.) og Arnold Scwarzenegger (t.h.) sátu fyrir svörum í Kaliforníu í gær. MYND/AP
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, ætla að sniðganga ríkisstjórn George Bush, og finna sameiginlegar leiðir til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Forsætisráðherra Bretlands og tortímandinn fyrrverandi sem nú hefur fundið nýjan frama í stjórnmálum funduðu í gær með stórlöxum úr viðskiptalífinu um umhverfismálefni á borð við hreina orku og hlýnun andrúmsloftsins. Báðir lýstu þeir vonbrigðum sínum með ríkisstjórn Bandaríkjanna og stefnu Bush Bandaríkjaforseta. "Við sjáum að alríkisstjórnin gengur ekki á undan með góðu fordæmi, þegar kemur að umhverfisvernd," sagði Schwarzenegger.

Blair bætti því við að stjórnvöldum hvarvetna í heiminum í dag bæri skylda til að breyta stefnu sinni til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. "Ég myndi ekki vilja vera leiðtogi í stjórnmálum eftir fimmtán, tuttugu, þrjátíu ár. Fólk á eftir að líta um öxl og segja 'Hvað í ósköpunum voru þeir eiginlega að hugsa á þeim tíma? Þeir vissu af vandanum en gerðu samt ekki neitt.'"

Hugmyndir stjórnmálamannanna ganga út á samvinnu með aðilum markaðarins til aðgerða í umhverfismálum, til þess að minnka útblástur gróðurhúsagastegunda og vinna gegn annarri mengun.

Schwarzenegger býður sig fram til ríkisstjóra í fyrsta skipti fyrir heilt kjörtímabil nú í nóvember, en hann tók við embætti ríkisstjóra á miðju kjörtímabili. Þessi umhverfisstefna hans nú er túlkuð af stjórnmálaskýrendum sem tilraun hans til að fjarlægjast stefnu Bush, samflokksmanns hans í Repúblikanaflokknum til að nálgast kjósendur í Kaliforníu, sem er fyrst og fremst demókratafylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×