Innlent

Gefur lítið fyrir rök ríkisstjórnarinnar

MYND/GVA

Dagur B. Eggertsson gefur lítið fyrir rökstuðning ríkisstjórnarinnar um að hægja þurfi á framkvæmdum á væntanlegu tónlistar- og ráðstefnuhúsi í Reykjavík til að slá á þenslu í efnahagslífinu og segir að svo virðist sem allt eigi að víkja fyrir stóriðjustefnu stjórnvalda.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hægja á framkvæmdum við tónlistar og ráðstefnuhús í samkomulagi við Reykjavíkurborg og Portus. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forsætisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að þetta væru skýr skilaboð frá ríkisstjórninni um að hún vildi viðhalda stöðugleikanum.

Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík segir þau rök þó í versta falli nothæf sem skemmtiatriði á árshátíð hagfræðinga. Þó hann fagni því að húsið sé að rísa segir hann óheppilegt að Reykvíkingar þurfi að sætta sig við að hafa stóra holu í hjarta miðbæjarins fjórum mánuðum lengur en gert var ráð fyrir.

Dagur segir jafnframt að skortur sé á yfirsýn þegar reynt væri að koma böndum á þensluna og nefnir hann sem dæmi að fyrirhugaðar framkvæmdir á Geldinganesi séu mun líklegri til að þensla í efnahagslífinu aukist enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×