Innlent

Landsátak gegn utanvegaakstri

Jónína Bjartmarz umverfisráðherra opnaði vefsíðu átaksins.
Jónína Bjartmarz umverfisráðherra opnaði vefsíðu átaksins. MYND/Stefán

Landsátaki gegn utanvegaakstri var ýtt úr vör í dag. Nýr umhverfisráðherra fagnar átakinu og segir utanvegaakstur brýnni málaflokk en rjúpnaveiðar.

Landsátakið var kynnt í húsakynnum Ferðafélags Íslands í dag. Kjarni átaksins hverfist um svokölluð umhverfisboðorð ökumanna, tíu talsins, en í þeim er meðal annars brýnt fyrir ökumönnum að aka ekki utan vegar nema á snjó og frosinni jörð, lágmarka útblástursmengun og umfram allt: bera virðingu fyrir náttúrunni. Við sama tilefni opnaði Jónína Bjartmarz umverfisráðherra vefsíðu átaksins, "www.arettumslodum.net". Að átakinu standa Ferðaklúbburinn 4X4 og Vélhjólaíþróttaklúbburinn í samvinnu við Útivist, Landvernd, Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins.

Umhverfisráðherra er að vonum ánægð með átakið og auglýsingaherferðina sem henni mun fylgja. Hún segir þetta vitundarvakningu til að vekja athygli á þeim verðmætum sem menn eru að spilla með utanvegaakstrinum.

Frægt varð þegar Siv Friðleifsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, bannaði rjúpnaveiðar hér á landi. Sigríður Anna Þórðardóttir aflétti banninu hins vegar skömmu eftir að hún tók við embættinu. Aðspurð hvort hinn nýi umhverfisráðherra hyggist beita sér gegn rjúpnaveiðum, samfara utanvegaakstrinum, segir Jónína málefni rjúpnaveiðanna hafa nýlega verið afgreidd, sem líklega flestir séu sáttir við. Báðir málaflokkarnir séu hins vegar á meðal margra sem heyri undir umhverfisráðuneytið og því muni hún hafa auga með þeim líkt og öllum hinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×