Innlent

Öryggisreglum í sundlauginni ábótavant

Hlúð að sundlaugargestum á Eskifirði í gær.
Hlúð að sundlaugargestum á Eskifirði í gær. MYND/Helgi G.

Líðan þeirra sem urðu fyrir eitrun í klórgasslysinu í sundlauginni á Eskifirði í gær er eftir atvikum. Vinnueftirlitið segir öryggisreglum í sundlauginni hafa verið ábótavant.

Vinnueftirlitið, lögregla og fleiri vinna enn að rannsókn mengunarslyssins á Eskifirði í gær þegar eitrað gas náði til sundlaugargesta og um þrjátíu veiktust. Líðan þeirra fjögurra, sem fluttir voru á slysadeild Landspítalans í Reykjavík, og þeirra tveggja, sem fluttir voru til Akureyrar, er eftir atvikum. Þrjú börn voru á meðal þeirra sem flutt voru til Reykjavíkur og að sögn vakthafandi læknis eru þau ekki í hættu. Þá dvöldu átján manns á sjúkrahúsinu í Neskaupsstað í nótt þar sem fylgst var með líðan þeirra til öryggis.

Víðir Kristjánsson, efnafræðingur hjá Vinnueftirlitinu, fór austur í gærdag og kom aftur í bæinn skömmu fyrir hádegi. Hann segir ljóst að þarna hafi orðið mannleg mistök. Efni, sem ekki eigi að fara í sundlaugar, fór í klór og við það myndast klórgasið. Víðir segir liggja fyrir að Olís hafi afgreitt rangt efni, en þó sé ekki ljóst hvort mistökin hafi verið gerð í Reykjavík eða annars staðar. Þrátt fyrir það hafi átt að athuga efnið áður en það var sett í sundlaugina.

Það er samdóma álit þeirra sem gegndu lykilstöðum í aðgerðunum í gær, að þær hafi gengið eins og best verði á kosið. Einnig þykir það mikið lán hversu sundlaugargestir voru fljótir að átta sig á hættunni og forða sér og því hafi ekki farið verr en raunin varð.

Víðir segir að Vinnueftirlitið muni fara yfir öryggisatriði í sundlauginni og gera kröfu til þess að þeim verði kippt í lag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×