Innlent

Skorður settar við efnistöku úr Ingólfsfjalli

Forstjóri Landverndar segir áfangasigur í náttúruvernd hafa náðst með úrskurði Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála um efnistöku úr Ingólfsfjalli. Nefndin stöðvaði framkvæmdir að hluta til með bráðabirgðaúrskurði sínum í gær. Enn er þó til meðferðar aðalkrafa kærenda, Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, um afnám framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr Ingólfsfjalli.

Landvernd kærði ákvörðun Bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita framkvæmdaleyfi  til efnistöku úr Ingólfsfjalli og krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Til bráðabirgða var þess krafist að efnistaka úr Ingólfsfjalli, í landi Kjarrs yrði stöðvuð án tafar þar til málið hefði verið til lykta leitt.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands kærðu í kjölfarið ákvörðun Bæjarstjórnar Ölfuss með svipuðum rökum og sömu kröfum og fram koma í kæru Landverndar.

Loks barst í tölvupósti kæra frá Náttúruverndarsamtökum Íslands sama efnis.

Kærendur styðja kröfu sína um stöðvun framkvæmda einkum þeim rökum að verði framkvæmdum haldið áfram meðan úrskurðarnefndin hafi málið til meðferðar sé hætta á að varanleg spjöll verði unnin á brún og hlíð Ingólfsfjalls á vinnslusvæðinu áður en endanleg niðurstaða fáist í málinu.  Ætla megi að hluti þeirra varanlegu og óafturkræfu áhrifa, sem framkvæmdin muni óhjákvæmilega hafa í för með sér, komi fram strax á fyrstu dögum efnistökunnar. Það sé því afar brýnt að framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað áður en hagsmunum þeim, sem kærunni sé ætlað að verja, verði fórnað. 

Af hálfu framkvæmdaleyfishafa og landeigenda er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Miklir hagsmunir séu tengdir áframhaldandi efnisvinnslu og sé efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur af áframhaldandi efnisvinnslu gríðarlega mikill. Stöðvun vinnslu á þessum tímapunkti hefði í för með sér mikil neikvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif. Hagsmunir kærenda séu ekki eins ríkir að þessu leyti og breyti þá engu sjónarmið sem sett séu fram í kærum þeirra til nefndarinnar. Vakin sé sérstök athygli á því að í kærunum séu ekki færð fram skilmerkileg rök fyrir kröfu um stöðvun framkvæmda og ekki sé þar að finna nauðsynlega útlistun á hagsmunum kærenda hvað þetta varði.

Af hálfu Sveitarfélagsins Ölfuss er m.a. á það bent að ekki sé í kærunum vikið að því einu orði að réttum málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt, enda hafi málsmeðferðin öll verið eftir gildandi reglum.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála þótti skilyrði vera fyrir hendi til að sameina kærurnar og fjallaði því um þær í einu lagi.

Bráðabirgðaúrskurður var kveðinn upp í gær og er það niðurstaða nefndarinnar að stöðva beri framkvæmdir sem miði að lækkun eða breytingu á fjallsbrún á námusvæðinu ofan Þórustaðnámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Jafnframt er leyfishafa á sama tíma óheimilt að ráðast í gerð fyrirhugaðrar eystri rásar eða að ýta efni fram af fjallsbrún á öðrum stað en um núverandi vestari rás. Loks er óheimilt á umræddum tíma að víkka eða dýpka þá hvilft sem myndast hefur efst í vestari rásinni.  Að öðru leyti er efnisvinnsla heimil á svæðinu með sama sniði og verið hefur að undanförnu.

Þá segir í bráðabirgðaúrskurðinum að Bæjarstjórn Ölfuss beri að hlutast til um að úrskurðinum verði framfylgt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×