Innlent

Opið á páskadag

Engin ástæða er til að örvænta þó að gleymst hafi að kaupa í páskamatinn eða þótt páskaeggið hafi ekki verið á sínum stað í morgun. Nú er nefnilega hægt að skjótast í búð og ná í sveppi í sósuna eða ís í eftirrétt, þó að í dag sé einn helgasti dagur kirkjualmanaksins.

Í 10-11 í Lágmúla er nú opið allan sólarhringinn eins og ekkert hafi í skorist, jafnt á rauðum degi sem á litlausum miðvikudegi. Starfsfólkið stendur vaktina við kassa og kæli og lætur engan bilbug á sér finna.

Andrea Eygló Ólafsdóttir, starfsmaður 10-11, sagði launin góð, að öðrum kosti myndi hún ekki standa í þessu. Hún sagði einnig að það væri svolítið gaman að vinna á hátíðisdegi, það væri margt fólk í versluninni og skemmtileg stemning. Hún sagði að margir hefðu komið í páskaeggjaleit um morguninn og eins væru þó nokkrir á síðustu stundu að ná sér í páskamatinn.

Páskaeggin voru nánast búin í Lágmúlanum en þar var enn hægt að finna vakúmpökkuð páskalömb og annan veislumat. Og sumir létu kylfu ráða kasti og leyfðu örlögunum að ráða hvað var í páskamatinn, eftir því hvað var eftir í hillum verslunarinnar klukkan fimm á páskadag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×