Innlent

Enn á neyslufylleríi þrátt fyrir viðvörunarbjöllur

Vöruinnflutningur jókst um ríflega þriðjung, í krónum talið, í síðasta mánuði. Hluti skýringarinnar liggur í lækkun krónunnar, en að sama skapi má ætla að þrátt fyrir viðvörunarbjöllur sé þjóðin enn á neyslufylleríi.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum um innheimtu virðisaukaskatts var vöruinnflutningur í mars í kringum 33 milljarða króna. Þetta er töluverð aukning milli mánaða en í febrúar var innflutningur um 22 milljarðar króna. Ef tölurnar reynast réttar er aukningin rúm 36%.

Það má velta því fyrir sér hvort Íslendingar hafi átt fyrir þessu eða keypt út á krít, þrátt fyrir vaxtahækkanir sem notaðar hafa verið til að slá á puttana á hinum kaupglöðu.

Í vefriti Fjármálaráðuneytisins segir að þótt um verulega magnaukningu sé að ræða eigi lækkun á tollgengi krónunnar sinn þátt í auknu innflutningsverðmæti milli mánaða en gengið veiktist um tæp 5% vegna innflutnings í mars.

Gera má ráð fyrir að það taki nokkra mánuði fyrir gengislækkunina að hafa áhrif á magnstærðir innflutnings en jafnan eru neysluvörur og bifreiðar sérlega næmar fyrir gengissveiflum og má því vænta minni aukningar innflutnings í þeim liðum á næstu mánuðum.

Annað sem kemur til er aukning í innflutiningi á eldsneyti en sá liður er afar sveiflukenndur. Verðmæti eldsneytisinnflutnings var mjög mikið í mars og koma þar saman gengislækkun og hækkandi eldsneytisverð á heimsmörkuðum. Innflutningur var einnig mikill á fjárfestingar- og rekstrarvörum eins og raunin hefur verið síðustu misseri en það stafar að mestu af fjárfestingum í stóriðju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×