Innlent

Excel Airways kaupir ferðaskrifstofuna Kosmar Holidays

Excel Airways Group, dótturfélag Avion Group hefur fest kaup á bresku ferðaskrifstofunni Kosmar Villa Holidays. Kosmar Holidays er fremsta ferðaskrifstofan í Bretlandi í ferðalögum til Grikklands og byggir á 24 ára reynslu í skipulagningu ferða þangað.

Kosmar Holidays styrkir ferðaskrifstofuhluta Excel Airways Group og fjölgar enn frekar leiðum félagsins til að selja flugsæti hjá leiguflugshluta Excel Airways Group. Fyrir eru fimm ferðaskrifstofur í eigu Excel Airways Group, þær eru: Excel Holidays, Freedom Flights, Aspire Holidays, Travel City Direct og XL.com.

Kosmar Holidays kemur inn í samstæðu Avion Group frá 2. maí 2006. Kaupverðið er trúnaðarmál og eru kaupin fjármögnuð með eigin fé og lánsfé. Velta Kosmar árið 2005 var 80,7 milljónir punda eða 10,3 milljarðar íslenskra króna.

Excel Airways Group er 8. stærsta félagið í sölu pakkaferða í Bretlandi og bætast nú við yfir 250 þúsund seldar ferðir á ári. Með þessum kaupum verður félagið líklega 5. eða 6. stærsta félagið í sölu pakkaferða á Bretlandi.

Kosmar Holidays býður upp á ferðir til yfir 80 áfangastaða í Grikklandi og að auki var nýlega ákveðið að fjölga áfangastöðum og býður Kosmar Holidays nú einnig upp á ferðir til ýmissa áfangastaða í Tyrkalandi.

Kosmar Holidays var stofnað árið 1982 af Kostas Markou. Hann er nú stjórnarformaður félagsins og kemur til með að starfa áfram með nýjum eigendum.

Kosmar Villa Holidays hlaut British Travel Awards sem besta ferðaskrifstofan sem flýgur til Grikklands.

 

"Ég er mjög ánægður með kaupin á Kosmar Holidays því þau auka enn frekar þá þjónustu sem Excel Airways Group býður upp á og eflir Charter & Leisure hluta Avion Group. Kosmar Holidays fellur vel inn í viðskiptamódelið sem Excel hefur þróað og þá framtíðarsýn sem við höfum fyrir Charter & Leisure hluta Avion Group. Einnig sjáum við fram á að ná samlegðaráhrifum í rekstri Kosmar Holidays þegar það verður hluti af Excel Airways Group. Það er mér sönn ánægja að bjóða Kosmar Holidays velkomin í hóp fyrirtækja Avion Group." sagði Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group um kaupin:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×