Innlent

Forseti skoska þingsins væntanlegur til Íslands

Forseti skoska þingsins, George Reid, kemur í opinbera heimsókn til Íslands í boði Sólveigar Pétursdóttur, forseta Alþingis, á morgun og mun dvelja hér fram á fimmtudag. Í för með skoska þingforsetanum verður sjö manna sendinefnd sem í eru þingmennirnir Bill Aitken, Scott Barrie, Brian Monteith, Jeremy Purvis og Andrew Welsh, auk Roys A. S. Devons, prótókollstjóra á alþjóðaskrifstofu þingsins, og Jane McEwan, ritara skoska þingforsetans.

Í heimsókninni fundar George Reid og sendinefnd hans með forseta Alþingis og fulltrúum þingflokka, utanríkismálanefndar og fjárlaganefndar. Þá munu þau heimsækja forseta Íslands á Bessastaði. Sendinefndin fundar með sjávarútvegsráðherra, ferðamálastjóra og embættismönnum á sviði heilbrigðismála. Þingforsetinn mun einnig heimsækja Þingvelli og fara í kynnisferð um Snæfellsnes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×