Innlent

Aftakaveður á Suðausturlandi

MYND/Elma Guðmundsdóttir

Aftakaveður er í vindhviðum í Öræfum og á Skeiðarársandi þar sem vindhraðinn hefur farið upp í 50 metra á sekúndu í hviðum. Nokkrir bílar hafa skemmst í sand- og malarfoki á Skeiðarársandi í morgun.

Fjöldi fólks lenti í erfiðleikum í bílum sínum á fjallvegum norðvestanlands í gærkvöldi þegar stórhríð og hvassviðri gengu þar yfir og voru margar björgunarsveitir kallaðar út til að aðstoða fólkið. Ekki er þó vitað til að neinn hafi sakað.

Verst var veðrið á Holtavörðuheiði, á Vatnsskarði í Húnavatnssýslum og á Steingrímsfjarðarheiði. Björgunarsveitarmenn frá Hvammstanga, Laugabakka og Varmahlíð unnu fram á nótt við að bjarga fólki úr föstum bílum og koma því til byggða.

Helstu leiðir á Norðurlandi eru orðnar færar en þó er ófært um Þverárfjall og stórhríð hefur verið á milli Sauðárkróks og Hofsóss í allan morgun. Mývatns- og Möðrudalsöræfi voru mokuð í morgun er Breiðdalsheiði og Öxi eru ófærar. Á Vestfjörðum er Klettsháls ófær en verið er að ryðja Steingrímsfjarðarheiði og Djúpið, en annarsstaðar er greiðfært, en víða hálka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×