Innlent

Krefur Vestmannaeyjabæ um 26 milljónir vegna starfsloka

MYND/Sigurður Bogi

Fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum krefur bæinn um rúmar 26 milljónir króna vegna meintra vanefnda á ráðningarsamningi hans. Bænum hefur borist bréf þessa efnis og það verður tekið fyrir á bæjarráðsfundi síðar í dag.

Ingi Sigurðssson var ráðinn bæjarstjóri í Vestmannaeyjum eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2002. Það gerði meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Hins vegar slitnaði upp úr því samstarfi um ári síðar og var Inga þá sagt upp störfum þegar nýr meirihluti Vestmannaeyjalistans of Framsóknarflokksins tók við.

Bærinn lét vinna lögfræðiálit vegna starfsloka Inga og þar var niðurstaðan að hann ætti rétt á launagreiðslum í sex mánuði eftir uppsögnina. Þau laun hefur hann fengið greidd. Ingi telur hins vegar að ekki hafi verið staðið við samninginn að fullu og hefur lögfræðingur hans skrifað Vestmannaeyjabæ bréf þar sem farið er fram á að Inga verði greidd laun út kjörtímabilið, eða fram í júní á þessu ári, eins og gert sé ráð fyrir í starfsamningi hans. Nemur krafan ríflega 26 milljónum króna.

Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, vildi lítið tjá sig um málið að öðru leyti en því að bréfið hefði borist bæjaryfirvöldum. Hann sagði að málið yrði tekið fyrir á fundi bæjarráðs á eftir, en hann hefst klukkan sex.

Ingi Sigurðsson sagði í samtali við fréttastofu að það yrði að koma í ljós hvort hann færi í mál við bæinn ef ekki yrði staðið við samninginn. Hann biði nú eftir viðbrögðum bæjaryfirvalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×