Innlent

Framkvæmdir stöðvaðar við gamla Hlaðvarpann

Framkvæmdir við ris gamla Hlaðvarpans hafa verið stöðvaðar á meðan verið er að rannsaka hvort þær standist deiliskipulag. Grunur leikur á að hæð rissins sé of mikil.

Miklar deilur voru um framkvæmdirnar í upphafi en íbúar í nærliggjandi húsum voru alfarið á móti því að húsinu væri breytt. Leyfi fyrir þeim fengust þó og eru breytingarnar nú komnar langt á veg. Þegar íbúar tóku eftir að ris hússins var í hærra lagi sendu þeir inn kvörtun til skipulags- og byggingasviðs Reykjavíkurborgar sem sendi mann á staðinn til að mæla hæðina.

Niðurstöður liggja nú fyrir og hefur fréttastofa heimildir fyrir því að hæð rissins sé um 60 sentimetrum hærri en deiliskipulag gerði ráð fyrir. Að sögn Magnúsar Sædal, byggingafulltrúa hjá Skipulags- og byggingasviðs Reykjavíkurborgar hafa framkvæmdir við risið verið stöðvaðar á meðan málið er í rannsókn en beðið er eftir því að eigendur hússins skýri frá sinni hlið málsins. Að rannsókn lokinni verður tekin ákvörðum um hvað gera skuli en risið er nánast tilbúið. Íbúar bíða nú eftir að sjá hvort risið verði rifið og lækkað eða hvort borgaryfirvöld leyfi hækkunina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×