Innlent

Kynjafræði eigi erindi inn í kennaramenntun

MYND/Stefán

Taka ætti upp kynjafræði í kennaranám meðal annars til að takast á við jafnréttismálin og kynferðisofbeldi í samfélaginu, að mati lektors í uppeldis- og menntunarfræði við Kennaraháskóla Íslands. Könnun sýnir að kennaranemar sýna námsgreininni mikinn áhuga.

Jafnréttisnefndir Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðar héldu í gær í samvinnu við ráðuneyti mennta og félagsmála ráðstefnu um jafnréttisstarf í leik- og grunnskólum. Meðal fyrirlesara var Þórdís Þórðardóttir, lektor í uppeldis- og menntunarfræði, sem fjallaði um það hvort kynjafræði ætti erindi inn í kennaramenntun.

Þórdís segir á að kynjafræðin sé þverfagleg grein þar sem tekið sé á jafnréttismálum á breiðum grundvelli. Hún bendir á að samkvæmt jafnréttislögunum skuli veita fræðslu um jafnréttismál á öllum skólastigum en mikil barátta sé um að koma mikilvægu námsefni að í skólum. Það sem detti út af sé það sem tengist jafnrétti og kynferðisofbeldi til dæmis og allri breiddinni í mannlífinu.

Þórdís kannaði fyrir tveimur árum áhuga fyrsta árs nema í Kennaraháskólanum fyrir námskeiði í kynjafræðum. Í ljós kom að tæplega áttatíu prósent nemanna höfðu áhuga á því. Þórdís telur aðspurð mikilvægt að taka upp slíka kennslu og beinleiníns kenna jafnrétti í skólum til að breyta valdahlutföllunum í samfélaginu, en bent hefur verið á að seint gangi að jafna rétt kynjanna.

Þá taki kynjafræði einnig á kynferðisofbeldi. Þórdís segir að kynjafræðingar hafi unnið margar rannsóknir því tengdu sem þyrfti að koma upp á borðið til þess að fólk geti skilið betur í hvers konar samfélagi við lifum og hvernig okkur beri að koma fram við náungann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×