Innlent

Lítill varnarviðbúnaður undanfarin ár

Undanfarin tvö ár hafa engir landgönguliðar verið til staðar í herstöðinni í Keflavík, eingöngu herlögregla með lágmarksþjálfun, auk orrustuþotuflugmanna sem skiptast á vöktum á nokkurra vikna fresti. Varnir landsins hafa því ekki verið öflugar undanfarin tvö ár.

Heimildir úr Sendiráði Bandaríkjanna herma að fáir hermenn hafi haft viðveru í herstöðinni í Keflavík undanfarin tvö ár. Því verði það aðallega fólk í þjónustustörfum sem pakki saman á næstu mánuðum.

Að sögn Friðþórs Eydals, talsmanns Varnarliðsins, hafa ekki verið fótgönguliðar hér á landi frá 1960. Hins vegar komu með flotanum landgönguliðar en þeir hurfu á brott fyrir tveimur árum í kjölfar endurskipulag á á herflota Bandaríkjanna. Áður en þeir hófu sig á brott þjálfuðu þeir eins konar heimavarnarlið, það er herlögreglu sem á að vera tilbúinn til að láta sverfa til stáls er þurfa þykir. Herlögreglumenn ásamt orrustuþotuflugmönnum eru á annað hundrað eins og sakir standa. Orrustuflugmenn skiptast á að taka vaktir á Íslandi á nokkurra vikna fresti. Þetta er sumsé sá varnarviðbúnaður sem verið hefur undanfarin tvö ár.

Annars berast þær fréttir af herstöðinni að þar sé unnið með hraði að áætlanagerð um brottför og verulegan niðurskurð í herafla. Til dæmis útskrifast börn í barnaskólanum venjulega í júlí en nú er unnið að því að þau útskrifist í maí því fjölskyldufólk mun fyrst allra yfirgefa stöðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×