Innlent

Utanríkisráðherra á faraldsfæti

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, hefur verið á faraldsfæti síðan fregnir af brotthvarfi Bandaríkjahers bárust í síðustu viku. Hann hefur nú rætt stöðu mála við starfsbræður sína í Frakklandi og Rússlandi og stefnan er næst tekin á Þýskaland.

Það var á miðvikudag í síðustu viku sem fregnir af áætlunum Bandaríkjahers bárust íslenskum stjórnvöldum. Á þriðjudaginn átti utanríkisráðherra fund með Philippe Douste-Blazy, utanríkisráðherra Frakklands, í París. Þar ræddur þeir meðal annars stöðuna í varnarviðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna.

Það var svo í gær sem Geir hélt til Moskvu til fundar við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Fundi þeirra er nú lokið og sagði Geir margt tengt alþjóðamálum hafa verið rætt. Hann gerði Lavrov grein fyrir stöðu mála í varnarviðræðunum. Hann hafi hlýtt á þá skýringar og sagt að hvað ákvörðun sem Íslendingar tækju yrði virt.

Geir segir ekki koma til greina að Rússar komi að vörnum Íslands en þeir hafi nefnt að þeir gætu selt okkur búnað, m.a. þyrlur. Geir segir að Frakkar hafi einnig nefnt slík viðskipti í viðræðum sínum við hann.

Næst heldur Geir til Berlínar til viðræðna við utanríkisráðherra Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×