Innlent

Líklega áfram í gæsluvarðhaldi

MYND/Vísir

Allar líkur eru á að krafist verði áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir tveimur Nígeríumönnum sem handteknir voru á leið úr landi með yfir átta og hálfa milljón króna í reiðufé í síðustu viku. Talið er að um sé að ræða fjársvikamál sem tengist tölvupóstsendingum.

Mennirnir komu til landsins fyrir síðustu helgi frá Kaupmannahöfn. Þeir eru búsettir í Madríd á Spáni. Rökstuddur grunur lék á að mennirnir tengdust brotastarfsemi og voru þeir stoppaðir á leið inni í landið. Það vakti athygli tollvarða að þeir voru með torkennilegt tól á sér svo sem joð, álpappír og svokallaðann flúorlampa. Ákveðið var að stöðva mennina aftur á leið úr landi daginn eftir en þá fundust á þeim 100.000 evrur eða rúm átta og hálf milljón íslenskra króna. Mennirnir gátu ekki gefið skýringar á því hvers vegna þeir höfðu svo mikla fjármuni meðferðis. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir þeim þar sem grunur var á að þeir hefðu stundað fjárglæpastarfsemi.

Í fyrradag voru tveir Íslendingar handteknir vegna málsins. Talið var að þeir hefðu framið refsivert brot en þeim var hins vegar sleppt í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum NFS er talið að fjársvikamálið tengist tölvupóstsendingu. Nígerísku mennirnir tveir höfðu fé af Íslendingum með því að sannfæra þá um að þeir gætu öðlast skjótfenginn gróða með því einu að leggja fram fé. Nokkuð hefur verið um það að Íslendingum hafi borist tölvupóstur frá erlendum aðilum þar sem fé er lofað gegn því að fólk leggi fram ákveðnar peningaupphæðir. Ítrekað hefur verið varað við slíkum póstum og fólki bent á að senda slík tölvupóstskeyti áfram til Ríkislögreglustjóra.

Gæsluvarðahald yfir Nígeríumönnunum rennur út í dag og eru allar líkur á að krafist verði framlengingar á því. Rannsókn málsins miðar vel og telur lögreglan góðar líkur á að rannsókn verði lokið fyrir lok næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×