Innlent

Ráðherrar ræddu veiðar og tolla

Heimsókn Einars K. Guðfinnssonar í Bretlandi lýkur í dag.
Heimsókn Einars K. Guðfinnssonar í Bretlandi lýkur í dag. MYND/Pjetur Sigurðsson
Hvalveiðar, sjóræningjaveiðar og verndartollar Evrópusambandsins voru meðal umræðuefna þegar Einar K. Guðfinnsson hitti Ben Bradshaw, sjávarúvegsráðherra Breta í Lundúnum í dag.

Einar segir Breta taka vel í sjónarmið Íslendinga um verndartolla Evrópusambandsins. Hann segir þá gera sér grein fyrir því að starfsemi Íslendinga skipti miklu fyrir þær byggðir Bretlands sem treysta á veiðar og vinnslu. Einnig er ljóst að Íslendingar eru helsti innflytjandi fisks til Evrópusambandsins. Því gætu Bretar verið haukur í horni í viðræðum við Evrópusambandið um lægri tolla á sjávarafurðum.




Ráðherrarnir ræddu úrræði gegn ólöglegum veiðum, enda hafa þjóðirnar báðar barist gegn svonefndum sjóræningjaskipum. Eftirlit á Reykjaneshrygg hefur verið aukið og einnig hafa innflutningsaðilar verið beittir þrýstingi að sniðganga sjóræningjana. Einar segir þessar aðgerðir þegar hafa skilað árangri.

Bretar eru hins vegar á öndverðum meiði við Íslendinga þegar kemur að hvalveiðum. Þetta hafi lengi verið ljóst en Einar segir Breta ekki hafa reynt að beita Íslendinga þrýstingi til að hætta hvalveiðum í þetta skiptið. Hann hafi kynnt frumniðurstöður vísindaveiða Íslendinga þar sem meðal annars hafi verið kynnt og að Bretar hafi sýnt niðurstöðunum mikinn áhuga.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×