Innlent

Baugsmáli áfrýjað

Settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu áfrýjar sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því fyrir viku til Hæstaréttar. Þætti Jóhannesar Jónssonar í Bónus og Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, verður ekki áfrýjað. Jóhannes hefur falið verjanda sínum að kvarta til Umboðsmanns Alþingis yfir embættisfærslu Jóns H.B. Snorrasonar saksóknara og Haraldar Johannessens ríkislögreglustjóra.

Sigurður Tómas Magnússon, saksóknari, lýsti ákvörðun sinni yfir við verjendur fjögurra sakborninga, þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Kristínar Jóhannesdóttur og tveggja endurskoðenda Baugs í dag. Sýknudómur Héraðsdóms snerist um átta liði af þeim fjörutíu sem ákært var í á síðasta ári. Sex þeirra verður nú áfrýjað og lúta þeir að skýringum með ársreikningi Baugs hf. og innflutningi á bifreiðum frá Bandaríkjunum.

Jóhannes Jónsson segir ákvörðun saksóknara valda vonbrigðum, enda hafi hann talið að þessi angi málsins væri út af borðinu. Augljóst er að hann er ekki laus allra mála, því settur saksóknari hefur enn þá 32 ákæruliði sem Hæstiréttur vísaði frá, til rannsóknar.

Að mati Jóhannesar er það með hreinum ólíkindum ef yfirvöld ætla að halda áfram að elta ólar við ásakanir Jóns Geralds Sullenberger, sem héraðsdómstóll hefur úrskurðað óhæfan sem vitni en það breytir því ekki að Jóhannes hefur verið boðaður í enn eina skýrslutökuna í fyrramálið. Svo er að heyra að hann muni mæta til málamynda og þá aðeins til að að gera mönnum ríkislögreglustjóra grein fyrir því að hann hafi ekkert við þá að tala. Það hafi komið í ljós að þarna sé á ferðinni óþverragengi í íslensku samfélagi.

Lög kveða á um að aðeins eigi að áfrýja opinberu máli ef meiri líkur en minni eru til þess að sakfellt verði. Að mati Jóhannesar hefur ekkert komið fram efnislega sem getur hnekkt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur og því hafi áfrýjun ákæruliðanna sex þann tilgang einan að leysa úr fræðilegri óvissu varðandi lög um ársreikninga. Lagalegri óvissu eigi að leysa í sölum Alþingis en ekki með því að draga menn fyrir rétt eins og hver önnur tilraunadýr.

Jóhannes telur ennfremur eðlilegt að Umboðsmaður Alþingis kanni sérstaklega hvernig standi á því að ekki hafi verið talin ástæða til að gefa út ákæru á hendur Jóni Gerald Sullenberger á grundvelli hans eigin framburðar þegar sami framburður var talinn tilefni til að gefa út ákærur á hendur honum og börnum hans. Telur hann að kanna verði hvort þeir Jón H.B. Snorrason og Haraldur Johannessen hafi þar gerst brotlegir við jafnræðisreglu stjórnarskrár íslenska lýðveldisins.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×