Innlent

Samstaða á þingi gegn forgangsgreiðslum

Samhljómur var um það meðal þingflokka í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag ekki skuli heimila efnameira fólki að kaupa sig fram fyrir á biðlistum í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisráðherra tilkynnti við umræðurnar að til stæði að leggja fram frumvarp um ný heilbrigðislög nú á vorþingi.

Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri grænna, upphafsmaður umræðunnar og spurði Siv Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra út í afstöðu hennar hugmynda sem koma fram í skýrslu svokallaðrar Jónínunefndar. Þar var kallað eftir umræðu um það hvort og þá að hvaða marki heimila skuli efnameira fólki að kaupa sig fram fyrir á biðlistum án þess þó að það leiði til lakari þjónustu fyrir aðra.

Svör heilbrigðisráðherra voru afdráttarlaus en Siv Friðleifsdóttir sagði að sér hugnaðist ekki sú leið sem um væri rætt og vísaði einnig til þess að forsætisráðherra hefði tjáð sig með sama hætti.

Fulltrúar bæði Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins lýstu sig andvíga hugmyndunum enda myndi slíkt leiða til mismununar og tvöfalds kerfis. Fulltrúi Samfylkingarinnar kallaði eftir svörum Sjálfstæðisflokksins.

Ásta Möller, þingkona Sjálfstæðisflokksins, benti á að biðlistar væru merki um skipulagsleysi. Með því að styrkja stöð stjórnvalda sem kaupanda heilbrigðisþjónustu væri hægt að ráða bót á vandanum. Stjórnvöld ættu að meta þörf fyrir þjónustu og umfang hennar og semja við einkaaðila eða eigin stofnanir um að veita þá þjónustu. Með þeirri nálgun væri hægt að útrýma biðlistum.

Heilbrigðisráðherra tilkynnti við umræðurnar að von væri á frumvarpi um ný heilbrigðislög en það yrði ekki afgreitt á þessu þingi. Ráðherra var ánægður með viðbrögð þingflokkanna og sagði við lok umræðunnar að það eina sem eftir væri væri að jarða hugmyndina um tvöfalt kerfi endanlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×