Innlent

París á suðupunkti

Námsmaður andspænis óeirðalögreglu í París í nótt.
Námsmaður andspænis óeirðalögreglu í París í nótt. MYND/AP

Óttast er að upp úr sjóði í París í kvöld líkt og í gærkvöldi, þegar óeirðalögregla réðst gegn námsmönnum sem höfðu lagt undir sig Sorbonne-háskóla. Íslendingar í París segja að andrúmsloftið minni einna helst á stúdentaóeirðirnar 1968.

Sara Kolka vinnur hjá franskri sjónvarpsstöð sem er með höfuðstöðvar í París og var með beina útsendingu frá óeirðunum í gærkvöldi. Hún segir atvinnulöggjöfina mikið hitamál í Frakklandi. Menn eru æfir yfir því hvernig það var afgreitt en frumvarpið var ekki samþykkt með atkvæðagreiðslu úr þingi heldur úr þingnefnd eftir undanþáguákvæðum í frönskum lögum. Talað er um að gjá hafi myndast milli fólksins og ríkisstjórnarinnar, svo óvinsælt er frumvarpið.

Frumvarpið snýst um atvinnusamning fyrir fólk yngri en 26 ára en gríðarlegt atvinnuleysi er hjá þessum aldurshópi og sérstaklega er erfitt fyrir nýútskrifaða háskólaborgara að fá vinnu við hæfi. Nýja löggjöfin kveður á um sérstakan byrjunarsamning til tveggja ára, sérstaklega ætlaðan ungu fólki en gagnrýnin hefur aðallega beinst að því hversu auðvelt er samkvæmt löggjöfinni að segja upp fólki hvenær sem er samningstímans eða eftir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×