Innlent

Ráðist inn í Sorbonne

Til óeirða kom í París í nótt þegar óeirðalögregla réðst gegn námsmönnum sem höfðu ráðist inn í Sorbonne-háskóla til að mótmæla frumvarpi um ný atvinnulög fyrir ungmenni.

Um átta-leytið í gærkvöldi höfðu nemendur reist vegartálma í kringum Sorbonne-torg og skömmu síðar réðust þeir til inngöngu í skólann um vinnupalla sem voru utan á honum. Skömmu eftir miðnætti mætti óeirðalögregla á staðinn og beitti táragasi og vatnssprautum gegn mótmælendunum sem aftur svöruðu fyrir sig með grjótkasti.

Frumvarpið umdeilda snýst um atvinnusamning fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á atvinnumarkaðnum en mikið atvinnuleysi er í Frakklandi hjá nýútskrifuðum háskólaborgurum. Mikil andstaða er í þjóðfélaginu gegn frumvarpinu. Tveir háskólarektorar, í Nantes og í Toulouse, hafa lýst andstöðu sinni við frumvarpið og búist er við að fleiri bætist í þann hóp á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×