Innlent

Óttist ekki

Íslendingum er ekki bráð hætta búin þótt fuglaflensan berist hingað til lands. Þetta segir Jarle Reiersen, dýralæknir alifuglasjúkdóma. Hann segist ekki búast við sýktum farfuglum til landsins fyrr en sjúkdómurinn er búinn að greinast í farfuglum á Bretlandseyjum þar sem flestir íslenskir farfuglar hafi vetursetu þar eða komi þar við á leiðinni.

Hann leggur mikla áherslu á að fuglaflensan sé fyrst og fremst fuglasjúkdómur sem sé ekki bráðsmitandi fyrir menn. Til að menn smitist af fuglaflensu þarf mikla umgengni við sýkta fugla. Fuglaflensuveiran drepst eftir eina mínútu við 70°C og því ætti ekki að vera hægt að smitast af því að éta sýkt kjöt svo fremi kjötið sé vel steikt. Þar fyrir utan er sýktum fuglum undantekningalaust fargað, hvort sem þeir séu sýktir af fuglaflensu eða öðrum sjúkdómum. Því eigi sýktir fuglar ekki einu sinni að komast inn á borð til neytenda.

Hann segir einnig að engin tilvik séu þekkt þar sem menn smitist af öðrum dýrum en fuglum og því sé enn ekki ástæða til að úthýsa heimilisköttunum þó þeir eigi það til að draga inn dauða fugla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×