Innlent

Efasemdir um frelsi í orkusölu

Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ hefur efasemdir um að raunverulegt frelsi ríki í orkusölu á landinu, miðað við hvernig stjórnvöld haga sér í stóriðjumálum. Hann segir undirbúning fyrir álver í Helguvík snúast um samninga tveggja hlutafélaga og ekki þurfi að senda framsóknarráðherra til útlanda til að biðja um gott veður.

 

Mikil gleði ríkir á Húsavík eftir undirritun viljayfirlýsingar í gær um byggingu álvers á Bakka við Húsavík. En í Helguvík á Reykjanesi er undirbúningur fyrir 250 þúsunda tonna álver vel á veg kominn. Þar eiga í samningaviðræðum hlutafélögin Hitaveita Suðurnesja og álfyrirtækið Century. Árni Sigfússon bæjarstjóri segir undirbúning ganga vel og þar hafi málsaðilar sjálfir greitt fyrir rannsóknir og athuganir, en annars staðar hafi iðnaðarráðuneytið greitt fyrir slíkt. Árni telur skynsamlegra að byggja fleiri og minni álver en færri og stærri. Hann segir vinnubrögð ríkisins í tengslum álversuppbyggingu annars staðar en í Helguvík öðruvísi en hjá Reyknesingum. Þeir hafi til dæmis ekki þurft að senda iðnaðarráðherra til Bandaríkjanna að hitta aðstoðarforstjóra álfyrirtækis til að biðja um gott veður. Árni segir að farið verði að ströngustu umhverfiskröfum í Helguvík og að Hitaveita Suðurnesja sé aflögufær með orku, að minnsta kosti fyrir fyrsta áfanga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×