Innlent

Gullæði á Norðurlandi

Gullæði hefur gert vart við sig á Norðurlandi í kjölfar fyrirætlana Alcoa um álver á Húsavík. Mikið verður byggt, fasteignaverð þýtur upp og samgöngur verða bættar.

Sem dæmi um þetta má nefna rekstrarforsendur fyrir jargöng í gegnum Vaðlaheiði. Pétur Þór Jónasson sem veitir undirbúningsfélaginu Greiðri leið forstöðu segir að líkur á göngum hafi verið góðar áður en Alcoa sendi frá sér viljayfirlýsinguna í gær en tíðindin styrki óneitanlega rekstrarforsendur verulega. Að Greiðri leið standa öll sveitarfélögin á Norðurlandi eystra og tíu fyrirtæki.

Þá fagnar stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjrðar viljayfirlýsingunni og telur að áhrif álvers verði víða á Norðurlandi. Félagið áætlar að íbúum á Norðurlandi fjölgi um 2000 vegna framkvæmdanna og þá þarf að byggja mikið af íbúðahúsnæði. Formaður Félags Byggingamanna í Eyjafirði talar um gull og græna skóga.

Fasteignasalar á Húsavík segja að íbúðaverð hafi snarhækkað í bænum undanfarið vegna möguleikans á álveri og er líklegt að tíðindi gærdagsins munu áfram sprengja upp verðið. Þá vona menn að Húsavíkurflugvöllur fái hlutverk á ný eftir áralangt stopp og fleira mætti nefna. Það má því segja að áhrifanna sé þegar farið að gæta þótt enn sé óvíst hvort af álveri verður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×