Innlent

Félagsráðgjafar höfnuðu tilboði borgaryfirvalda

Félagsráðgjafar funda á dögunum.
Félagsráðgjafar funda á dögunum. MYND/Vilhelm

Félagsráðgjafar höfnuðu í morgun tilboði borgaryfirvalda í kjaraviðræðum aðilanna og svöruðu með gagntilboði. Formaður stéttarfélags félagsráðgjafa segir mikið hafa borið í milli.

Kjarasamningar félagsráðgjafa við borgina runnu út þann 1. desember síðastliðinn og var þá samið upp á nýtt. Sá samningur var hins vegar kolfelldur í atkvæðagreiðslu og hefur kjaranefnd Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa fundað með launanefnd Reykjavíkurborgar nokkrum sinnum síðan, en án árangurs. Hinir síðarnefndu gerðu félagsráðgjöfum tilboð á dögunum sem þeir svöruðu með gagntilboði í morgun. Ella Kristín Karlsdóttir, formaður Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa, segir ansi mikið hafa borið í milli en vill þó ekki nefnar neinar tölur.

Borgaryfirvöld hyggjast svara gagntilboðinu næstkomandi þriðjudag. Ella segist bjartsýn á jákvæð viðbrögð við því, en ef viðbrögðin verða á neikvæðum nótum segir hún málinu verða vísað til ríkissáttasemjara. Aðspurð segir hún verkfall vel koma til greina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×