Innlent

Ný tækni til að lina þjáningar íþróttamanna

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhendir þeim Sigurði Erni Aðalgeirssyni og Jóni Steinari Garðarssyni Mýrdal verðlaunin.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhendir þeim Sigurði Erni Aðalgeirssyni og Jóni Steinari Garðarssyni Mýrdal verðlaunin.

SPORT-COOL hlaut nýsköpunarverðlaun forseta Íslands í dag. Um er að ræða nýja tækni til að lina þjáningar íþróttamanna.

Þetta var í ellefta sinn sem nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru afhent. Verðlaunin eru afhent árlega námsmönnum sem hafa skarað fram úr við úrlausn verkefna sem styrkt eru af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Sjóðurinn styrkti í ár 141 verkefni. Markmið sjóðsins er að nemendur geti starfað við metnaðarfullar rannsóknir yfir sumartímann sem komi í stað sumarvinnu.

Fjögur verkefni voru tilnefnd til verðlaunanna. Þeir Sigurður Örn Aðalgeirsson og Jón Steinar Garðarsson Mýrdal hlutu nýsköpunarverðlaunin að þessu sinni fyrir SPORT-COOL sem er ný tækni til að lina þjáningar við íþróttameiðsl. Meiðsl eru í dag kæld með íspokum og þar sem enginn hefur stjórn á þeirri kælitækni eiga íþróttamenn það til að ofkæla meiðsl sín. Þeir verða því oft daufir fyrir sársauka þegar þeir fara aftur út á völlinn og auka jafnvel meiðsl sín.

Í SPORT-COOL tækninni er tæki sett á líkamann en tækið kælir hratt og ólíkt íspokum þá er hægt að stýra mun betur hvenær vöðvi hefur verið kældur nægilega og ákveða mismunandi styrk kælingarinnar. Með þessu er hægt að koma íþróttamönnum fyrr aftur út á völlinn og koma í veg fyrir aukin meiðsl. Þeir Sigurður og Jón Steinar vinna nú að því að fá tækið framleitt og hafa meðal annars sótt um einkaleyfi fyrir það í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×