Innlent

Samískur joiksöngur, rímur, rokk og passíusálmarnir á Vetrarhátíð

Hallgrímskirkja lýst upp á Vetrarhátíðinni í fyrra.
Hallgrímskirkja lýst upp á Vetrarhátíðinni í fyrra. MYND/Stefán

Samískur joiksöngur, rímur, rokk og passíusálmarnir í flutningi meistara Megas er meðal þess sem sjá má og heyra á Vetrarhátíð í Reykjavík í ár. Vetrarhátíðin hefst á morgun með mikilli ljósasýningu á Austurvelli en hún var fyrst haldin árið 2002. Þetta er því í fimmta sinn sem hátíðin fer fram. Undirbúningurinn hefur verið langur og strangur og eru hátt í 200 atburðir á dagskránni.

Og það er aðeins pólitískari blær á hátíðinni í ár en áður hefur verið og segir Sif Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Höfuðborgarstofu, að ýmis félagasamtök, t.a.m. Amnesty International og Síung, muni kynna starfsemi sína í Ráðhúsinu með þátttöku gesta og gangandi.

Venjan er að bjóða einum erlendum gesti á Vetrarhátíðina og í ár er það samíska söngkonan Marit Hætta Överli. Hún hefur sérhæft sig í joik-söngforminu sem samanstendur af miklum rythma og trumbuslætti. Hún mun koma fram í Íslensku óperunni á laugardagskvöldið ásamt fjölda íslenskra tónlistarmanna, t.d. Sigtryggi Baldurssyni, Steindóri Andersen og tveimur meðlimum rokkhljómsveitarinnar Mínuss. Þá mun Megas flytja Passíusálmana við eigin tónlist í Hallgrímskirkju á laugardaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×