Innlent

Áætlað að vitnaleiðslum ljúki í dag

Óskar Magnússon, fyrrverandi stjórnaformaður Baugs, var fyrsta vitni í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Óskar Magnússon, fyrrverandi stjórnaformaður Baugs, var fyrsta vitni í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. MYND/Gunnar V. Andrésson

Spurt var um viðskiptamannareikninga, lánveitingar og bókhaldslykla í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þegar aðalmeðferð í Baugsmálinu var fram haldið þar í morgun. Áætlað er að vitnaleiðslum verði lokið í dag og málflutningur fari síðan fram á morgun.

Það voru fyrrverandi stjórnar- og starfsmenn Baugs og endurskoðendur sem báru vitni fyrir dómi í morgun. Þar á meðal voru þau Óskar Magnússon, starfandi stjórnarformaður Baugs á árunum 1998 og 1999, Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, og Þorgeir Baldursson, forstjóri Kvosar, en þau tvö síðastnefndu sátu í stjórn Baugs á árunum 1998 til 2003. Guðfinna og Þorgeir sögðu sig bæði úr stjórn félagsins í mars 2003 þar sem þau töldu alvarlegan trúnaðarbrest hafa orðið innan stjórnar félagsins.

Þau voru spurð um starfsreglur sem stjórn félagsins setti sér snemma í stjórnartíð þeirra og viðskipti Baugs við tengd félög en forsvarsmönnum Baugs er meðal annars gefið að sök að hafa sett fram ársreikninga á rangan og villandi hátt. Þau voru einnig spurð hvort þau hefðu haft vitneskju um stöðu viðskiptamanna reikninga Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Kristínar Jóhannesdóttur og félaganna Gaums og Fjárfars hjá Baugi. Þau sögðust ekki hafa haft vitneskju um stöðu þeirra og stjórninni hefði ekki verið gerð grein fyrir henni fyrr en bréf Stefáns Hilmarssonar, endurskoðanda, var lagt fyrir fund stjórnar þar sem bent var á atriði sem mættu betur fara.

Auk þeirra bar Linda Jóhannsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs, vitni og var spurð um bókhaldslykla og hvernig skuldir hefðu myndast á áðurnefndum viðskiptamannareikningum. Linda sagðist hafa haft umsjón með innheimtu reikninga. Hún sagðist ekki hafa innheimt fyrrnefndar viðskiptamannaskuldir þar sem hún hafi fengið þau svör frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni, sem þá var framkvæmdastjóri Baugs, að þess þyrfti ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×