Innlent

Enginn samningur til

Borgarstjóri segir að borgaryfirvöld geti farið með tilboð í lóðir við Úlfarsfell eins og þau vilji þar sem enginn samningur hafi verið gerður við þá sem áttu hæstu tilboðin. Heppilegra hefði þó verið ef öll tvímæli hefðu verið tekin af í útboðsgögnum.

Benedikt Jósepsson átti hæsta boð í 39 af 40 einbýlishúsalóðum í lóðaútboðinu í Úlfarsárdal sem lauk síðast fimmtudag. Fyrirtæki máttu ekki bjóða í einbýlishúsalóðirnar og parhúslóðirnar og því buðu Benedikt og fleiri sem byggingaverktakar í þessar lóðir í eigin nafni. Ef tillaga borgarstjóra verður að veruleika mun Benedikt ekki fá aðeins fá eina lóðina.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri segir þann vilja borgaryfirvalda að hver og einn fái aðeins eina einbýlishúsa- eða parhúsalóð hafa verið skýran frá upphafi. Hún segir vissulega að betra hefði verið að taka það fram í útboðsgögnunum. Steinunn segir þó ljóst að enginn samningur hafi verið gerður við þá sem áttu hæstu boðin í lóðirnar og því geti borgaryfirvöld gert það sem þeim sýnist í málinu.

Bjarni Tómasson og Gunnar Jónasson áttu hæsta tilboð í 31 parhúsalóð af 43. Þeir eru eigendur fyrirtækisins September sem bauð í lóðir ætlaðar verktökum og áttu þeir hæsta tilboð í ellefu raðhúsalóðir. Í Samtali við NFS sagðist Bjarni ánægður með að fá bara eina parhúsalóð þrátt fyrir að hafa átt hæsta boð í 31, það hafi verið það sem hann hafi vonast eftir. Hann og fyrirtæki hans munu því eftir útboðið líklega standa eftir með ellefu raðhúsalóðir og eina parhúsalóð nái tillaga borgarstjóra fram að ganga.

Þeir sem litu út fyrir að hafa dottið í lukkupottinn í útboði einbýlishúsa- og parhúsalóðanna munu fá eina lóð hver og munu borga fyrir þær hærra verð en þeir sem munu fá hinar lóðirnar sem þeir áttu hæsta boð í.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×