Innlent

Dæmdar skaðabætur þrátt fyrir gáleysi

Eigendur gistiheimilis á Höfn í Hornafirði voru í dag dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða manni rúmar 1,3 milljónir í skaðabætur með vöxtum í tæp 3 ár auk 450 þúsund króna í málskostnað vegna vinnuslyss sem varð í september 2001 þegar maðurinn vann við að mála gistiheimilið.

Slysið varð þegar starfsmaður gistiheimilisins Ásgarðs var að mála húsið að utan. Stefnandi stóð á 2,6 metra háum álvinnupalli á hjólum sem stóð á grasi og reisti ásamt samstarfsmanni 2,8 metra langan stiga uppi á pallinum. Samstarfsmaðurinn fór upp í stigann en þegar pallurinn byrjaði að halla datt stefnandi af pallinum og hafnaði á bakinu. Eftir slysið kveðst stefnandi hafa fundið fyrir miklum verkjum enda kom í ljós samfallsbrot á mjóhrygg. Varanlegur miski var metinn 12%, en varanleg örorka 50%.

Fyrir dóminum var deilt um hver bæri ábyrgð á slysinu. Eigendur gistiheimilisins töldu það hvíla á stefnanda að gera ráðstafanir til að tryggja að undirstöður verkpallsins væru traustar til dæmis með því að setja undirstöður undir hjól hans. Dóminum þótti hinsvegar vega þyngra að stefnandi hafi ekki átt annarra kosta völ en að vinna verkið með þeim verkfærum sem honum voru fengin. Umsjónarmaður verksins sem var á vegum eigenda gistiheimilisins hafi ekki gert athugasemdir við verklagið en stefnandi og samstarfsmaður hans höfðu margoft kvartað yfir ástandi pallsins án þess að fá viðbrögð. Í dóminum segir að aðgerðarleysi verkstjórans eftir réttmætar kvartanir geri það að verkum að sökin hvíli á eigendum gistiheimilisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×